144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé enn þeirrar skoðunar sem hann hefur verið fram til þessa, að það sé rétt að selja Landsbankann, þ.e. þau 30% sem heimild hefur verið fyrir í fjárlögum fram til þessa. Að sjálfsögðu er þetta frumvarp lagt fram hér eftir meðhöndlun beggja þingflokka og í ríkisstjórn.

Það hefði kannski ekki átt að koma mér á óvart að menn reyndu að grípa þetta mál til að æsa upp eitthvert moldviðri í þinginu og efna til átaka um eitthvað sem ekkert er. Ef menn halda að ég hafi miklar áhyggjur af því að skipa áfram bara þrjá í stjórn Bankasýslunnar þar sem ég ræð öllum þremur stjórnarmönnunum og gefa þeim skýrar línur um það hvernig ég sjái fyrir mér að stofnunin muni standa að þeim verkefnum sem hún á að taka að sér get ég alveg gert það. Ég kvíði því ekki neitt. Ég tel bara að það fyrirkomulag sem við leggjum hér upp með sé (Forseti hringir.) skynsamlegra, betur í samræmi við þær meginreglur sem gilda um þessi mál, meðferð ríkisins á eignarhlutum og í samræmi við þau (Forseti hringir.) málefnasvið sem ráðuneytið fer fyrir. Af þessu hlýst aukinheldur sparnaður.