144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það var samþykkt þingsályktun 7. nóvember 2012 um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

Í kjölfar Víglundarskjalanna kallaði forsætisráðherra eftir því að það væri kannski tími til þess að rannsaka síðari einkavæðinguna í kjölfar hrunsins. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kallaði líka eftir rannsókn á einhverjum tímapunkti þannig að það eru allir búnir að kalla eftir rannsókn — en það gerist ekki neitt. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ekki hlynntur því að farið verði í rannsókn á einkavæðingu bankanna, bæði fyrri og síðari. Ég spyr, jafnvel þó að hann ætli að fara af stað með þetta núna, hvort hann styðji ekki að við förum af stað í rannsókn á þessum einkavæðingum ekki síðar en núna.