144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nýlega urðum við vitni að því að inn í þingið kom frumvarp um náttúrupassa og við vissum að ekki var samkomulag um það innan ríkisstjórnarflokkanna. Hér er ríkisfjármálaáætlun þar sem talað er um sölu á 30% hlut í Landsbankanum. Við ræðum hér frumvarp til laga um meðferð á sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum og stærsti kaflinn hlýtur þá að vera um stóra hlutinn okkar sem við ætlum að selja í Landsbankanum.

Hver heldur hv. þingmaður að afdrif þessa frumvarps verði? Má ekki leiða að því líkum að það fari svipað fyrir þessu frumvarpi og fyrir náttúrupassanum þar sem augljóst er að ekki er eining innan stjórnarflokkanna um hvernig fara á með eignarhlutinn, hvort yfir höfuð á að selja hlut í Landsbankanum eða hvert hlutverk hans á að vera?