144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það hefur verið mjög áhugavert að hlusta á hv. stjórnarandstæðinga tala hver við annan. Það er augljóst að það má spara, bara ekki í ríkisrekstrinum. Ég held að það sé nokk sama hvar komið er niður, þetta er allt hið versta mál. Meira að segja það að spara í ráðuneytunum er eitt hið alvarlegasta sem hefur komið inn ef marka má orðaskipti hv. stjórnarandstöðuþingmanna.

Eins og við vitum átti þessi stofnun upprunalega að halda utan um eignarhluti bankanna, menn litu svo á að stóru viðskiptabankarnir þrír yrðu hjá ríkinu ásamt miklu af sparisjóðakerfinu. Niðurstaðan varð sú að þetta urðu bara Landsbankinn og nokkrir mjög litlir sparisjóðir en hins vegar fór eignarhlutur stóru sparisjóðanna, SpKef og Byr, aldrei inn í Bankasýsluna þrátt fyrir að lög kvæðu á um það, eins og við þekkjum. Við ræddum það aðeins áðan og ég ætla ekkert að fara yfir það.

Hv. þingmaður talaði um að þekkingin í stofnuninni gæti horfið. Þetta eru tveir starfsmenn. Halda menn að ef þessi stofnun verður lögð niður, sem kostað hefur 400 millj. kr., þá hverfi þekking þessara einstaklinga? Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þennan málflutning.

Við búum á Íslandi, við erum ekki í Kína þar sem fólk er í einhverjum órafjarlægðum. Þetta eru tveir einstaklingar, prýðilegir einstaklingar, sem þarna eru, með ágætisþekkingu, eftir því sem ég best veit hinir mætustu einstaklingar. En hvaða þekking hverfur? Þeir gleyma ekki því sem þeir vita núna og gögnin hverfa ekki þó að þessi stofnun verði lögð niður — eða er það hv. þingmaður?