144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt að talað er um að sparnaður gæti verið 40–50 millj. kr. árlega og ég efast ekkert um að það sé rétt út reiknað hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en ef ekki er hins vegar vandað til verka við sölu á þessum hlutum þá gæti það kostað miklu meira. Ég held því að við verðum að horfa á það að við höldum umgjörðinni þannig að í kringum sölu á þessum hlutum þurfi menn ekkert að efast um að þeir fái í fyrsta lagi rétta verðið, þeir séu að selja á réttum tíma og öll umgjörðin og ferlið sé í góðu lagi, af því að það er auðvelt að tapa þessum ávinningi, 40–50 milljónum, þegar verið er að selja svona stóran hlut.

Fyrir utan það, frú forseti, held ég að það sé afar óskynsamlegt og ég er reyndar dálítið hissa á því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skuli fara út á þann hála ís að búa til umgjörð í kringum sölu á eignarhlutum bankanna, sem ýtir undir tortryggni og þann orðróm að hér séu helmingaskiptaflokkar komnir til valda og nú eigi að endurtaka leikinn og þeir séu núna með einhvern í huga sem þeir vilji gjarnan að sýsli með þessa eignarhluta sem þjóðin á. Það veldur bara tortryggni.