144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur ræðuna. Við erum báðar minnugar þess hvernig ástand var hér á síðasta kjörtímabili og lögin um Bankasýsluna voru sett í ágúst 2009. Við settumst báðar á þing í fyrsta skipti í maí 2009 og þá var sumarþing, sem var óhefðbundið að því leyti að við vorum að störfum nánast allt sumarið. Þar á meðal var verið að stofna Bankasýslu ríkisins, þegar ríkið var meira eða minna komið með í fangið allar fjármálastofnanir landsins. Það var að fenginni ráðgjöf bestu sérfræðinga ákveðið að setja fjármálastofnanir inn í þetta ákveðna félag en svo vildi til að tveir flokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, sem höfðu einkavætt þau fyrirtæki sem við vorum komin með í fangið, fyrir utan einhverja sparisjóði, voru ekki mjög hjálplegir í því ferli þar sem við vorum að reyna að finna út úr því hvernig væri á sem bestan hátt og til þess að efla sem best traust á kerfinu hægt að koma þeim málum fyrir.

Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn Bankasýslu ríkisins en Framsóknarflokkurinn, þeir þingmenn sem voru hér í salnum, sem voru ekki margir, sátu hjá. Núna virðast einhverjir framsóknarmenn í hagræðingarhópi vera að kaupa hugmyndir um að þetta sé sparnaður upp á 50 milljónir. Telur þingmaðurinn að (Forseti hringir.) þetta sé raunveruleg sparnaðaraðgerð eða að eitthvað annað hangi á spýtunni?