144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:13]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hélt prýðisræðu og fór yfir, eigum við að kalla það einkavæðinguna hina fyrri, það er vinsælt að nefna hana svo. Ég ætla bara að taka undir orð hennar, að það er víti til varnaðar.

Ég get hins vegar ekki samsinnt því að hér sé hægt að líkja saman þeirri leið sem verið er að leggja til í þessu frumvarpi, þar sem verið er að leggja til fyrirkomulag um sölu og meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og í raun og veru verið að fella úr gildi tvenn lög, annars vegar um Bankasýslu ríkisins og hins vegar um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, lög nr. 155/2012, og setja hér í ein lög.

Það hefur komið alveg skýrt fram í umræðunni og jafnframt hjá hv. þingmanni um armslengdarsjónarmiðið, að mjög mikilvægt er að þess sé gætt. Í 4. gr. frumvarpsins er talað um ráðgjafarnefnd sem á að taka við hlutverki Bankasýslunnar og það hefur komið fram í umræðunum. Mig langar í fyrra andsvari að spyrja hv. þingmann hvaða breytingar hún vilji sjá á skipan nefndarinnar eða mögulega á staðsetningu nefndarinnar til að armslengdarsjónarmiða sé gætt til hins ýtrasta.