144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

tollar og matvæli.

727. mál
[15:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og tækifærið fyrir að taka þessa umræðu hér í þingsal.

Varðandi fyrri spurninguna um hvort til standi að breyta eða hverfa frá útboðsgjaldi þá er svarið að samkvæmt 65. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, eru tvær aðferðir við úthlutun á tollkvótum. Annars vegar að láta hlutkesti ráða úthlutun eða leita tilboða í heimildir til innflutnings. Báðar leiðir hafa verið reyndar hér á landi og fylgja þeim bæði kostir og gallar. Með útboði tollkvóta fylgir aukinn kostnaður fyrir neytendur sem væntanlega kemur fram í hærra vöruverði en andvirði kvótans rennur hins vegar í ríkissjóð og er því ávinningur skattgreiðenda Einnig hefur verið nefnt að útboðsleiðin gefi stórum aðilum betri færi á að eignast kvóta en litlum aðilum eins og hv. þingmaður nefndi. Þegar hlutkesti er látið ráða úthlutun hefur verið bent á að mikið óöryggi sé með hver fái kvóta. Þannig gætu smáir aðilar fengið stóran kvóta og hugsanlega selt til stærri aðila í hagnaðarskyni og á það hefur reyndar reynt.

Þann 17. mars 2015 féllu þrír dómar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Stefnendur kröfðu íslenska ríkið um endurgreiðslu meintra ofgreiddra gjalda vegna innflutnings á landbúnaðarvörum. Heildarfjárhæð krafna stefnenda í málunum þremur var rúmlega 500 millj. kr. Dómsorð í málunum þremur var samhljóða. Íslenska ríkið var sýknað af kröfum stefnenda. Hins vegar kemur fram í niðurstöðum héraðsdóms að útboðsgjaldið sem innflytjendur greiða til íslenska ríkisins fyrir tollkvóta sé gjald sem talist gæti skattur í skilningi 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, nr. 33/1944. Í framhaldinu er fjallað um það val ráðherra sem honum er gefið í 65. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru. Í dómnum segir:

„Ráðherra hefur verið fengið ákvörðunarvald um hvort skattur skuli lagður á eða ekki með því vali sem honum hefur verið fengið í lögum, á milli tveggja eðlisólíkra aðferða, þ.e. hvort hlutkesti skuli ráða úthlutunarkvóta eða útboð.“

Í framhaldinu kemst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að löggjafinn hafi í umræddu tilviki framselt til ráðherra of víðtækt skattlagningarvald og slíkt sé í andstöðu við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrárinnar. Það má hins vegar vera eðlilegt að íslenska ríkið bregðist við dómum héraðsdóms til að eyða þeirri óvissu sem hefur komið upp við úthlutun tollkvóta. Það er slæmt að óvissa sé um úthlutun þeirra og hvort gjald sem ríkissjóður fær af þeirri úthlutun sé í uppnámi. Slíkt kemur við ríkissjóð enda var það gjald rúmar 345 millj. kr. á árinu 2014.

Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið kemur til álita að fella á brott úr 3. mgr. 65. gr. laganna, orðin „heimilt að láta hlutkesti ráða úthlutun“.

Önnur spurning fyrirspyrjanda sneri að því hvort verið væri að taka það til athugunar að breyta magntollum eða verðtollum sem lagðir eru á innflutt matvæli. Við því er það svar að ekki hefur verið til athugunar að breyta verð- eða magntollum einhliða. Slíkar breytingar yrðu gerðar með tvíhliða samningum við önnur ríki. Hafa ber þó í huga að þessir tollar voru ákveðnir með lögum árið 1995 og hefur því magntollurinn, sem er krónutölutollur, rýrnað að raungildi frá þeim tíma.