144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

intersex.

731. mál
[15:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka ráðherra fyrir að afla gagna og svara hér í dag fyrirspurn minni um stöðu intersex-barna, sem var dreift fyrir skömmu. Ég kem að spurningum mínum eftir augnablik en vil umræðunnar vegna fá að byrja á því að rekja hér í stuttu máli hvað intersex er.

Vel má vera að það sé ekki öllum fyllilega ljóst en ég tel að til þess að breyta viðhorfum, venjum og ákvörðunartöku vegna þeirra barna sem hér fæðast intersex þurfum við fyrst og fremst að auka skilning á viðfangsefninu og skilning á þeim afleiðingum sem vanhugsuð inngrip geta haft á líf þessara einstaklinga.

Intersex er hugtak sem nær yfir breitt svið af meðfæddum líkamlegum einkennum eða breytileika sem liggur á milli okkar stöðluðu hugmynda um karl- og kvenkyn. Intersex-einstaklingar fæðast með einkenni sem eru ekki algjörlega karl- eða kvenkyns, sem eru sambland af karl- og kvenkyns eða hvorki karl- né kvenkyns. Intersex-breytileikinn, ef svo má kalla, er býsna algengur en ekki mjög augljós eins og fyrr var nefnt. Lægsta algenga tölfræði er ein af hverjum 2.000 fæðingum, eða um 0,05%, en líklegri tala er væntanlega um 1,7% sem þýðir að það er álíka líklegt að einhver sé intersex og að hann fæðist rauðhærður, það er álíka tölfræði þarna á milli.

Intersex-einstaklingar, eins og allt annað fólk, geta glímt við heilsufarsvandamál. Í tilfellum einstakra greininga getur verið þörf á læknisaðstoð frá fæðingu en intersex-breytileiki einn og sér er ekki heilsufarsvandamál. Læknainngrip miða alla jafna að því að láta intersex-líkama aðlagast okkar hefðbundnu hugmyndum um karl- og kvenlíkama.

Ég hef heimildir fyrir því að örlög þeirra intersex-barna sem fæðast hér á landi ráðist enn af gamaldags fordómafullum hugsanagangi þar sem jafnvel nýfætt barn er sett undir hnífinn til þess að eyða einhverjum afbrigðileika sem enn býr í huga sums fólks, þeirra sem telja enn núna árið 2015 í ótrúlegri þvermóðsku og ég vil leyfa mér að segja af fávísi hreinlega að mannskepnan sé ekki til þess bær að vera annað en annaðhvort karl eða kona.

Virðulegi forseti. Í ljósi þessarar umræðu tel ég brýnt að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hvernig er ákveðið hvort ástæða þyki til að gera aðgerð á intersex-barni? Hverjir koma að þeirri ákvörðunartöku?

2. Hvernig er upplýsingagjöf til foreldra um intersex og læknisfræðilegar meðferðir háttað?

3. Hvers kyns ráðgjöf og fræðslu fá foreldrar intersex-barna við greiningu og hver annast hana?

4. Hversu mörgum hefur verið boðin fóstureyðing á grundvelli (Forseti hringir.) þess að fóstur búi yfir intersex-breytileika?

5. Hversu margar aðgerðir á ári eru gerðar á börnum til þess að „leiðrétta“ kyn eins og það er kallað?