144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

intersex.

731. mál
[16:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp til umræðu og sömuleiðis þakka fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað. Það er alveg ljóst að það er margt mjög nýtt við nálgun í umræðu um intersex-einstaklinga og kerfið kannski á margan hátt vanbúið til að takast á við vandamálin sem því fylgja. Ég get á margan hátt tekið undir það sem hefur komið fram um að ekki sé æskilegt að grípa inn í á þann hátt sem gert hefur verið, en við verðum á sama hátt að viðurkenna að það er réttur foreldra að fara með málefni barns síns og við verðum að takast á við hvernig grípa eigi fram fyrir hendur foreldra ef þau tilvik koma upp.

Þau svör sem ég kallaði eftir vegna þessarar umræðu hér koma frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi þar sem sérfræðingar okkar á þessu sviði hafa unnið og það kann vel að vera að kerfið þar og ferlið sé ekki fyllilega í stakk búið til að mæta öllum þeim óskum sem uppi eru í þeim efnum. Ég vænti þess því og vona að þessi umræða geti orðið til þess að við stígum einhver frekari skref fram á við í þeim efnum, því að það er hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar áðan þegar hann orðaði þetta mjög einfalt og skýrt: Það að vera öðruvísi er ekki sjúkdómur og við eigum ekki að umgangast þannig einstaklinga með því hugarfari.