144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:06]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram umræðu um frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það má segja að þetta frumvarp sé að uppistöðu til tvíþætt, annars vegar er kveðið á um heimildir til sölu bankanna og hins vegar er um að ræða grundvallarkerfisbreytingu sem er í því fólgin að leggja niður Bankasýslu ríkisins og koma á öðru fyrirkomulagi um umsýslan bankanna og samskipti fjármálaráðuneytisins við þá.

Í 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um söluheimild eignarhluta. Þá er vísað til eignarhluta ríkisins í Arion banka, eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka og eignarhluta ríkisins í Landsbankanum umfram 70% hlut ríkisins af heildarhlutafé bankans.

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég er þessu algerlega andvígur, en ég skil forsendurnar mætavel. Þegar vikið er að söluferlinu vilja menn forðast það sem gerðist hér í kringum aldamótin og er enn órannsakað af hálfu þingsins þótt við höfum samþykkt þingsályktunartillögu þar að lútandi, en þar segir í 9. gr., með leyfi forseta:

„Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti.“

Það er þarna sem ég staðnæmist. Að sjálfsögðu er ég því fylgjandi ef farið yrði út á þá braut að selja hlut ríkisins í Landsbankanum að leita eftir hagkvæmasta kostinum og besta verðinu fyrir ríkissjóð og þar með skattgreiðendur, en andstaða mín við þetta frumvarp byggir hins vegar á því að hagkvæmar sé fyrir okkur sem samfélag að við eigum þennan banka. Ég sagðist skilja hvernig á því stæði að ríkisstjórnin vildi selja og ég gef mér að hún hafi orðið fyrir talsverðum þrýstingi sem hafi aukist til mikilla muna við fréttir af arðgreiðslum bankanna. Þeir eru farnir að mala gullið í gömlum stíl og hafa verið að greiða út til eigenda sinna tugi milljarða króna. Þar sem um er að ræða og þegar um er að ræða ríkissjóð þá fara þeir peningar að sjálfsögðu þangað, til okkar, og hefur nú munað um minna en 20 milljarða kr., svo vísað sé í arðgreiðslur af Landsbankanum. Þá er náttúrlega byrjað að herja á ríkisstjórnina um að nú skuli selt. Það eru sömu aðilar og vilja að við seljum Landsvirkjun og að við seljum aðrar almannaeignir. Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð hafa ályktað í þá veru.

Ég tel mjög mikilvægt að í okkar litla fjármálakerfi sé til staðar kjölfesta í að minnsta kosti einum öflugum ríkisbanka. Þetta var skoðun sem við höfðum og héldum jafnframt fram í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þegar bankarnir voru gerðir að hlutafélögum í kringum aldamótin og síðan seldir, við vorum því andvíg en lögðum höfuðáherslu á að alla vega einum banka yrði haldið í ríkiseign. Það hefði betur verið gert.

Nú sjáum við vaxandi fylgi hugmynda, bæði austan hafs og vestan, að leitað verði leiða til að reka bankakerfið á vinveittari hátt okkur viðskiptavininum en nú er gert, reyna að forðast þá árásargjörnu stefnu sem einkennt hefur fjármálakerfið þar sem gróðasjónarmið hafa verið höfð að leiðarljósi að öllu leyti og menn vilja leita leiða til að reka fjármálakerfið og bankana í þágu samfélagsins. Þannig hafa ýmsir bæir og sveitarfélög vestan hafs í Bandaríkjunum verið að gera tilraunir í þá veru, að setja alla sína umsýslu inn í eigið fjármálakerfi sem síðan færir út kvíarnar sem þjónustufyrirtæki við skattgreiðendur, við lántakendur og lánveitendur, því að fólk fær laun sín borguð inn í gegnum bankana og síðan renna þeir peningar út í atvinnulífið. Spurningin er þá þessi: Hversu rík er áherslan á að skapa eigendum bankanna arð? Eða viljum við horfa til samfélagslegra þátta?

Þetta er það sem ég staðnæmist við þegar vísað er í orðið hagkvæmni, að hagkvæmni felist í því fyrst og fremst, og það er skilgreint í 9. gr. lagafrumvarpsins, að fá sem hæst verð fyrir bankana. Það er ekki endilega víst að það sé hagkvæmasta lausnin fyrir samfélag okkar.

Hinn þátturinn sem er annar meginþráðurinn í frumvarpinu er að leggja niður Bankasýsluna og færa valdið yfir bönkunum, að því leyti sem um vald er að ræða, inn í fjármálaráðuneytið og fastar tengt þeim fjármálaráðherra sem situr hverju sinni. Hann á að sönnu að hafa sér til ráðgjafar nefnd sérfræðinga, ráðgjafarnefnd eins og hún er skilgreind í lögunum. Það er útlistað í 4. gr. frumvarpsins hverjir skulu sitja þar. Í 4. gr. segir, með leyfi forseta:

„Í ráðgjafarnefnd um fjármálafyrirtæki í ríkiseigu sitja þrír einstaklingar og einn til vara, skipaðir af ráðherra án tilnefningar. Ráðherra skipar einn þeirra formann og ákveður þóknun nefndarmanna. Ráðuneytið skal leggja nefndinni til starfsaðstöðu og aðra þjónustu sem nefndin þarf á að halda.“

Síðan þykir ástæða til að festa í lög að í ráðgjafarnefndinni skuli vera lögráða menn og þeir skuli ekki hafa komist í kast við lögin undangengin ár í tengslum við atvinnurekstur á einhvern hátt. Gott og vel.

Hvað þýðir það þegar ráðherra skipar nefnd án tilnefningar? Það er án þess að utanaðkomandi aðilar fái tækifæri til að koma fram með tillögur sínar, og þá bindandi tillögur, um samsetningu nefndarinnar. Skipan ráðherra án tilnefningar þýðir einfaldlega að ráðherrann ræður því algerlega sjálfur hverjir sitja í nefndinni. Hann ákveður líka þóknun til nefndarmanna.

Hæstv. forseti. Ég hélt að við værum í kjölfar efnahagshrunsins að reyna að færa okkur frá þeim tíma, frá því fyrirkomulagi, að búa til eða byggja stjórnsýsluna þannig upp að persónuleg áhrif og tengsl þeirra manna sem fara með völdin og hinna sem veita ráðgjöfina og vísa veginn, eða taka þátt í því að vísa veginn því að auðvitað eru það stjórnvöldin sem leggja stefnuna, en taka þátt í að útfæra hana, að þeir séu sem sjálfstæðastir og standi ekki alveg inn undir andardrættinum frá ráðherranum. En þannig er það með þessa nefnd. Við erum því að keyra okkur til baka aftur fyrir árið 2008, haustið 2008, hvað stjórnsýsluna þarna áhrærir.

Ég leyfi mér að hafa mjög miklar efasemdir um þetta frumvarp, til að mynda hvað varðar sölu á bönkunum. Nú skal ég taka fram að við ræddum það í fyrri ríkisstjórn hvort rétt væri eða nauðsynlegt að ríkið ætti til dæmis Landsbankann að fullu, 100%. Það var vissulega talað um þessa hlutfallstölu, 70%. Ég held hins vegar að eftir því sem sú umræða þróaðist, eða þannig skildi ég það, höfum við verið komin á þá skoðun að eðlilegast væri að ríkið hefði fullt eignarhald á þeim banka. Þá er ég að tala um arðinn, ég er að tala um áhrifin og áherslurnar sem slík fjármálastofnun mundi hafa og smitar síðan út frá sér í fjármálakerfið almennt. Mér finnst mikilvægt að það komi fram að á sínum tíma var sú hlutfallstala nefnd, en menn höfðu færst í áttina að 100% eignaraðild. Þannig skildi ég það. Þannig var mín skoðun og ég hafði á tilfinningunni að við sem mynduðum síðustu ríkisstjórn værum á því máli, enda ríkur skilningur á því í henni og ekki síst í kjölfarið á þeim hörmungum sem riðu yfir í tengslum við hrunið, að það væri fjármálastofnun í okkar agnarsmáa hagkerfi, eins og ég sagði áðan, sem hefði góða kjölfestu.

Það er margt annað sem væri fróðlegt og gagnlegt að ræða í tengslum við þetta mál. Það er þá hvernig ríkið eigi að hafa hag af eignum sínum, hvort sem um er að ræða banka, virkjanir, sjávarútveginn, auðlindirnar almennt, hvenær eigum við að gera það í gegnum eignarhaldið og hvenær eigum við að gera það óbeint í gegnum auðlindasjóð, eins og talað hefur verið um. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi um daginn að æskilegt gæti verið að stofna auðlindasjóð sem arðurinn af orkulindunum rynni til. Það er ágæt hugmynd en hún nægir mér ekki. Það er ekki nóg með að við eigum að láta arð renna þarna inn heldur eigum við líka að eiga þessi fyrirtæki. Orkufyrirtækin eiga að vera á hendi samfélagsins, ríkisins og líka sveitarfélaga. Það skiptir að mínum dómi afar miklu máli.

Þetta er umræða sem er gagnlegt að við tökum. Ráðherrann vakti máls á því á þingi Samtaka atvinnulífsins, held ég hafi verið, ekki alls fyrir löngu. Við eigum öll að taka þátt og fá tækifæri til að taka þátt í umræðu um hvert við viljum stefna í þeim efnum, hvernig við ætlum að hafa arð eða veita arðinn af auðlindum okkar og verðmætum í samfélagi okkar inn í það sama samfélag þannig að það gagnist því sem best.

Að lokum þetta: Ég held að um sé að ræða mál sem er miklu stærra en svo að við afgreiðum það hér á fáeinum dögum fyrir þinglokin, enda hefur það komið fram að annar stjórnarflokkanna er mjög efins um málið, samþykkti á nýafstöðnu þingi sínu, ég veit ekki betur en Framsóknarflokkurinn hafi gert það, að það væri ekki að hans skapi að hlutur ríkisins í Landsbankanum yrði seldur, gott ef var ekki líka andmæli gegn því að leggja niður Bankasýsluna, þótt ég vilji ekkert fullyrða um það hygg ég þó að svo hafi verið. Þarna er ekki samstaða. Ég held að við eigum að taka á þessu máli saman en reyna ekki að keyra í gegn skipulagsbreytingar, um er að ræða grundvallarskipulagsbreytingar, sem mikil ósátt er um.