144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson erum ósammála um það grundvallaratriði hvort hér hafði orðið þjóðargjaldþrot eða ekki þá held ég að okkur dugi ekki alveg tvær mínútur í andsvörum til að slétta úr þeim ólíku sjónarmiðum. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað þegar Seðlabankinn verður ógjaldfær, allir viðskiptabankar landsins verða gjaldþrota, lánalínur landsins erlendis lokast og hætta skapast á því að ekki sé hægt að fá til landsins orku, lyf og aðrar grunnþarfir þjóðarinnar. Er það reynsla sem við þurfum að læra af? Já, sannarlega og fátt hlýtur að liggja beinna við að reyna að læra af þeirri reynslu en einmitt það að varna því að pólitísk afskipti ráði því með hvaða hætti eignarhlutir í fjárfestingarbönkum og viðskiptabönkum landsins verði seldir. Þess vegna erum við að ræða þetta mál. Það er í sjálfu sér ekkert flóknara. Það getur verið að gera hefði mátt meiri kröfu og tryggja betur armslengdina og það getur vel verið rétt hjá hv. þingmanni að Bankasýslan ein og sér tryggi það ekki að stjórnmálin komist ekki með puttana í þetta ferli, en hún er sannarlega viðleitni til þess. Ef þingmaðurinn vill efla þá viðleitni og styrkja Bankasýsluna og tryggja það enn betur að stjórnmálin geti ekki haft pólitísk afskipti af málum þá styð ég hann í allri þeirri viðleitni en ekki hinu að leggja stofnunina bara niður og stinga þessu inn í ráðuneyti hjá pólitískum ráðherrum.