144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að ítreka spurningu mína frá því fyrr í dag sem var um hvort einhver sáttafundur hafi verið haldinn á vegum hæstv. forseta í aðdraganda umræðunnar um þetta mikla deilumál. Og ef svo er ekki, hvers vegna ekki? Stendur til að halda slíkan fund?

Ég er algjörlega ósammála því lögfræðilega áliti sem hér var kynnt munnlega og mér fyndist nú vera bragur að því að við fengjum líka meiri tíma til þess að melta það og leita álits annars staðar. Hér er talað um réttinn til þess að leggja fram breytingartillögur. Hann er vissulega ríkur, en hann verður að fjalla efnislega um sama málið og þingmálið fjallar um. Ég get ekki fallist á að Hvammsvirkjun sé efnislega sama virkjun og Hagavatnsvirkjun. Það er bara ekki svoleiðis, hún er hvorki efnislega né formlega eða á nokkurn hátt sama virkjun og Hvammsvirkjun.

Þetta mál heitir Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (Hvammsvirkjun) — inni í sviga. (Forseti hringir.) Inni í þeim sviga eru ekkert fleiri virkjanir. (Forseti hringir.) Tillögur um aðrar virkjanir eiga þess vegna efnislega ekkert skylt við þessa tillögu.