144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að mótmæla þeim vinnubrögðum að forseti komi með úrskurð og lesi hann upp í upphafi dagskrár, áður en málið er tekið fyrir, og gefi okkur ekki einu sinni færi á því að eiga um það samtal. Í því áliti sem hæstv. forseti fór yfir hér áðan koma fram hlutir sem ég tel vera beinlínis ranga og ég vil fá nánari skýringar á. Til dæmis hélt hann því fram að verkefnisstjórnin hafi verið búin að fullræða þá kosti sem atvinnuveganefnd leggur til að bætt verði við tillöguna. Rökin fyrir því hvers vegna verkefnisstjórnin lauk því ekki koma beinlínis fram í þingsályktunartillögunni, þar kemur skýrt fram að hún telur sig ekki vera búna að fjalla um þessa kosti.

Hvernig getur þá hæstv. forseti komist að þeirri niðurstöðu að hún sé búin að því? Er það bara kalt mat hans og ráðgjafa hans? Hvernig vinnubrögð eru það eiginlega?

Ég verð líka að segja alveg eins og er að ef við ætlum að fara í umræður um þetta mál með svona veganesti (Forseti hringir.) með okkur, að það er þá alveg ljóst hvernig menn munu líta á þingið. Það skiptir bara engu máli hvað hér fer fram og hvaða lög hér eru samþykkt (Forseti hringir.) … verið að brjóta þau.