144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég teldi lagalega óvissu vera um þetta mál og það held ég að sé. En ég held að það sé ekki nokkur óvissa um að þessi vinnubrögð eru ekki til þess fallin til að bæta menninguna á þinginu, því að hér höfum við mjög þung rök sem eru greinargerð sjálfs umhverfisráðherra í þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að eingöngu Hvammsvirkjun færist yfir í nýtingarflokk, þar sem beinlínis er sagt í þeirri greinargerð að menn telji að það standist ekki lög um rammaáætlun að færa Hagavatnsvirkjun yfir í nýtingarflokk af því að það sé svo mikil vinna eftir við að kanna ýmislegt sem tengist þeim virkjunarkosti.

Við höfum sem sagt yfirlýsingu hæstv. umhverfisráðherra um að þetta standist ekki lög. (Forseti hringir.) Svo kemur hæstv. forseti hér og les það upp að rök hnígi í þá átt, að það liggi fyrir faglegt mat (Forseti hringir.) á þeim málefnalegu sjónarmiðum sem byggja beri verndar- og orkunýtingaráætlun á. (Forseti hringir.) Við hljótum, herra forseti, að fá hlé til að fara yfir þennan úrskurð af því að svona vinnubrögð eru auðvitað ekki vænleg til árangurs.