144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. umhverfisráðherra hefur ítrekað það hér að hún hefði flutt sömu tillögu og fyrirrennari hennar í starfi um aðeins einn kost, um Hvammsvirkjun, vegna þess að aðeins væru uppfyllt lögformleg skilyrði fyrir þeirri einu tillögu. Það þýðir á mæltu máli að tillaga meiri hluta atvinnuveganefndar fer gegn þeim lögum og þeim lagaáskilnaði sem ráðherrann ber ábyrgð á að sé í heiðri hafður. Ég hlýt að spyrja ráðherrann hvort hann geti unað við það að forsætisráðherra beri ekki traust til eigin umhverfisráðherra í þessu efni, að formaður þingflokks Framsóknarflokksins fari gegn þeim lögum og því áliti sem ráðuneyti hennar hefur gefið út og aðrir þingmenn (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins. Verður ekki hæstv. ráðherra að íhuga stöðu sína ef svo heldur fram sem horfir?