144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[15:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Um allt Ísland er nú kallað eftir því að lægstu launin í landinu verði leiðrétt. Við þær aðstæður gerir ríkisstjórnin best í því að lækka skatta á lægst launaða fólkið í landinu. Hún getur aukið barnabætur við barnafjölskyldur, húsaleigubætur við leigjendur, lækkað tekjuskatt á lægstu hópana eða veitt þeim sérstakan afslátt. Þetta á ríkisstjórnin að gera í stað þess að standa í ráðaleysi, benda á aðra og hóta fólki lagasetningu.

Ríkisstjórnin þarf að átta sig á því að það er hún sem á að vera í forustu en ekki í farangursgeymslunni og að það er hún sem er ástæðan fyrir ósættinu. Það er hún sem með aðgerðum sínum í skattamálum hefur aukið misskiptingu í landinu. Það er þess vegna sem hrópað og kallað er eftir því að fólkið á lægstu laununum fái mestar kjarabæturnar. Það er hennar að leiðrétta þá misskiptingu sem hún sjálf hefur beitt sér fyrir.

Enn ein ástæðan fyrir því að þetta er sú leið sem ríkisstjórnin á að fara er sú að það er mikilvægt að kjarabæturnar í landinu verði ekki bara fyrir fólk sem er vinnandi. Stærsti hópurinn sem skilinn hefur verið eftir, sem hefur misst af öllu launaskriðinu eru öryrkjar í landinu og ellilífeyrisþegar. Besta aðferðin til að bæta kjör þessara hópa er að ríkisstjórnin hafi forustu um skattaaðgerðir fyrir hina lægst launuðu í landinu. Hún getur til dæmis breytt skattkerfinu til að lækka skattana hjá þessum hópum og aukið barnabætur og húsaleigubætur til þeirra. Ríkisstjórnin á nefnilega að setja niður deilur en ekki að skapa þær.