144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég verð nú að spyrja hæstv. forseta að því hvort ég sé hér í ræðu eða í fundarstjórn forseta af því að ég sé að tíminn sem mér er skammtaður — hann hefur nú verið leiðréttur og er núna 20 mínútur.

Við Íslendingar eigum ekki í sama mæli og aðrar þjóðir hof, hallir og kastala. Þegar kemur að byggingum með sagnfræðilegri og menningarlegri tilvísun getum jú við boðið upp á Hallgrímskirkjuna, sem er auðvitað tignarleg en er ósköp smá miðað við það sem nágrannaþjóðir okkar hafa upp á að bjóða. En við eigum hins vegar yfir stórkostlega náttúru. Hún er stolt okkar, ekki bara þegar kemur að því að sýna hana ferðamönnum sem sækja okkur heim heldur líka fyrir okkur sjálf til þess að njóta, bæði hreyfingar og útivistar og komast í snertingu við landslag sem ekki hefur verið hróflað við í árþúsundir, ekki nema þá bara af náttúrunni sjálfri, því að náttúra Íslands er síkvik og síbreytileg, eins og við vitum.

Ef við förum í smáferðalag sem tengist þeim virkjunarkostum sem hér um ræðir og ökum áleiðis upp Flúðaafleggjarann frá þjóðvegi 1 og beygjum síðan til hægri inn til Árness og förum fram hjá Árnesi og sveigjum inn Þjórsárdalinn þá sjáum við Þjórsána þar sem hún kemur niður Þjórsárdalinn. Í bakgrunni er Búrfell þar sem Búrfellsvirkjun er, og þar á bak við er hin stórkostlega Hekla sem gnæfir eins og musteri við upphaf svæðisins að Fjallabaki. Og ef við höldum áfram upp þjóðveginn hjá Búrfelli og förum í áttina að Sprengisandi erum við komin inn á miðhálendi Íslands þar sem hin fyrirhugaða Skrokkölduvirkjun er staðsett — ef meiri hluta atvinnuveganefndar verður að ósk sinni — í jaðri þjóðgarðsins sem kenndur er við Vatnajökul.

Virkjanirnar í Þjórsá, að minnsta kosti Holts- og Hvammsvirkjun, eru allar á því svæði sem við förum fram hjá fyrst og Skrokkalda á miðhálendinu. Hagavatnsvirkjun, sem hér er líka til umfjöllunar og lagt er til að verði færð í nýtingarflokk, er síðan við upphaf annarrar gamallar þjóðleiðar fyrir hálendi Íslands, Kjalveg, við suðurhluta Langjökuls og liggur á milli rótarsandsins þar sem Hlöðufell eru og fleiri myndarleg fjöll, Högnhöfði og Rauðafell, Þórólfsfell, og síðan Jarlhetturnar sem teygja sig í austur hver á fætur annarri.

Þær virkjunarhugmyndir sem við fjöllum hér um, verði þær að veruleika, eru varanlegar breytingar á náttúru Íslands, á landslagi og upplifun bæði ferðamanna og okkar um aldur og ævi, um ókomna tíð, það verður ekki tekið til baka, óafturkræft. Þess vegna mundi maður halda að það væri sjálfsagður réttur hvers þingmanns og í rauninni hvers Íslendings að hafa aðkomu að ákvörðun sem tekur þessi verðmæti varanlega frá öllum Íslendingum, þeim sem eru lifandi í dag og ófæddum. Er það veruleikinn sem við blasir? Nei, því að það sem hér hefur gerst er að meiri hluti atvinnuveganefndar hefur ákveðið einhliða eftir fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um að færa Hvammsvirkjun í Þjórsá úr biðflokki í nýtingarflokk, að bæta fjórum virkjunum við sem hafa í för með sér stórkostleg áhrif á náttúru Íslands, landslag þess, um aldur og ævi.

Til þess að fyrirbyggja að slíkar ákvarðanir séu teknar í óðagoti, án vandaðs undirbúnings og faglegrar úttektar höfum við sett okkur lagabókstaf sem heitir lög um vernd og nýtingu, oft kölluð rammaáætlun. Þau lög eru þannig úr garði gerð að í 9. og 10. gr. er greint frá því að skipuð skuli sérstök verkefnisstjórn sem fari með það verkefni að raða virkjunarhugmyndum í sérstaka röð, sérstaka flokka, nýtingu, bið og vernd. Þar er kveðið á um að verkefnisstjórnin skuli skipa sér faghópa, leita til sérfræðinga, hafa samráð við allar helstu stofnanir sem snerta á málaflokknum, hafa samráð við hagsmunasamtök, almenning, veita 12 vikna umsagnarferli, taka við athugasemdum, röksemdum og álitum. Það er sá lagarammi sem við höfum búið okkur til til þess að koma í veg fyrir að ákvarðanir séu teknar að óathuguðu máli.

Þess vegna er það átakanlegt, sorglegt að verða vitni að því þegar fáeinir einstaklingar taka sér það vald og telja það vera rétt sinn, telja sig vera þess umkomna og hafa til þess umboð að ákveða einhliða að þarna skuli virkjað. Og þegar þeir eru spurðir að því hvort þeir hafi litið svo á að þeir hafi þá getað farið inn á verksvið verkefnisstjórnar er svarið: Já. Við fórum svona yfir það sem upp á vantaði. Og það sem við náðum ekki að dekka verður dekkað í umhverfismati framkvæmda, þannig að það er engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af neinu.

Að vísu er það þannig að umhverfismat hefur aldrei snúið við ákvörðun um að setja nokkurn virkjunarkost í virkjun, aldrei nokkurn tíma, þess þekkjast ekki dæmi í sögunni. Hér er því lagabókstafnum snúið fullkomlega á haus. Og þeirri sátt sem á að felast í lögum um rammaáætlun er kastað í sjóinn, hún er fyrir bí. Það er auðvitað mikill munur á því að taka svona ákvarðanir um kattahald eða hundahald eða einhverja aðra hluti, en þegar kemur að sjálfri náttúru Íslands og þegar kemur að okkar helstu verðmætum, okkar Íslendinga, er það algjörlega ótækt að sex menn í atvinnuveganefnd Alþingis ákveði að taka þetta vald sér í hendur og leggi það til hér og ætli síðan að keyra þetta mál fram af fullkominni vanþekkingu. Það er auðvitað ekkert annað en frekja, yfirgangur og ofbeldi.

Það er alveg með ólíkindum að verða vitni að því að meiri hluti þingsins komi hér ítrekað upp og býsnist yfir því að verið sé að gagnrýna þetta vinnulag þegar öllum má ljóst vera þegar þeir hlusta á ræður hv. þingmanna úr atvinnuveganefnd, sem reyna hér af veikum mætti að rökstyðja þessa málsmeðferð, að þessir hv. þingmenn hafa algjörlega misskilið lögin. Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson kom hér upp í gær og þóttist hafa fundið sönnun á því að fjallað hefði verið með faglegum hætti um Hagavatnsvirkjun, hann var ákaflega stoltur af því. (Gripið fram í.)Og þegar menn fóru að skoða nánar við hvað hv. þingmaður átti kom í ljós að hann hafði fundið álit eins af faghópunum sem verkefnisstjórnin hafði skipað og leit svo á að búið væri að fjalla um þetta, að það væri bara rangt sem menn hefðu haldið fram að ekki hafi verið fjallað um þetta. (PJP: Það fjölluðu allir hópar um þetta.) Hvert var þessi virkjunarkostur settur? Hann var settur í bið af verkefnisstjórninni. (Gripið fram í.) Þetta er því fullkominn misskilningur.

Er það þá þannig að mati hv. þingmanns að ef einhver sérfræðingur eða einhver sem um málið fjallar fer upp að Hagavatni, setur fingurinn upp í loftið og tekur vindáttina, að þá sé búið að fara fram faglegt mat, að þá megi setja kostinn í nýtingarflokk? Það er með ólíkindum ef menn ákveða að lesa lögin með þeim hætti, það er með hreinum ólíkindum. Þess vegna eiga menn auðvitað ekkert að vera hissa á því að hér tali menn mikið og lengi og muni tala mikið og lengi um þetta mál, vegna þess að ekkert annað kemur til greina en að breytingartillögurnar sem meiri hlutinn í atvinnuveganefnd hefur lagt til verði dregnar til baka. Það er engin önnur sáttaleið í þessu máli. Það fara engir samningar fram ef hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar hafa ímyndað sér það, um það að einhverjum fáeinum verði sleppt í gegn og aðrar teknar út. Það virkar ekki þannig.

Ég ímynda mér, út af því að hv. þm. Jón Gunnarsson er hér í hliðarsal og kom fram hér í síðastliðnum nóvember með átta hugmyndir að virkjunum sem hann vildi ráðast í, að hann líti á þetta sem einhvers konar póker þar sem hægt sé að víla og díla um niðurstöðuna. Það er ekki þannig, vegna þess að þrátt fyrir að vilji sé til þess í ríkisstjórninni að ráðast í fleiri virkjanir þá er það einfaldlega þannig að verkefnisstjórn um rammaáætlun hefur lagt það til að hún treysti sér til þess að mæla með því að Hvammsvirkjun ein verði flutt úr bið í nýtingu.

Ég væri ósáttur við það að virkjað yrði þar, það er persónuleg skoðun mín. Hún er auðvitað byggð á mati mínu á óeiginlegum hlutum eins og verðmæti útsýnis, verðmæti upplifunarinnar á svæðinu, hvernig við eigum að fara með landið o.s.frv. Ég gæti hins vegar ekki annað en sætt mig við það ef Hvammsvirkjun yrði flutt úr bið í nýtingu ef það væri gert á grundvelli ráðlegginga frá verkefnisstjórn vegna þess að maður hefur skuldbundið sig til þess, eða hefur alla vega hingað til gert það, að líta svo á að verkfærið ætti að ráða þessu, (JónG: Þú gerðir það ekki síðast.)að sá ferill sem ákveðinn hefur verið … (JónG: Þú gerðir það ekki síðast.) Ég ætla að biðja hv. þm. Jón Gunnarsson um að stilla sig aðeins á meðan ég flyt hér ræðu mína svo að ég fái að klára það sem ég vil segja um þetta mál án truflunar.

Maður mundi auðvitað horfa til þess að hinu lögformlega ferli hefði verið fylgt. Þetta er auðvitað það sem hæstv. ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, gerði þegar hann lagði til að Hvammsvirkjun yrði færð úr bið í nýtingu. Og þetta er auðvitað það sem hæstv. ráðherra umhverfismála, Sigrún Magnúsdóttir, á við þegar hún segir að hún vilji helst að verkefnisstjórnin fái að klára vinnu sína, þannig að fram fari faglegt mat þannig að ferlinu sé fylgt þannig að allar þær stofnanir sem við eiga fái að koma með umsagnir þannig að umsagnarferlið sem er 12 vikur sé virt, þannig að þetta sé gert eins og hjá fólki, eins og búið er að ákveða að gera þetta.

Það er bara þannig sem þetta er. Auðvitað eru menn að fara fram hjá þessum lagabókstaf. Og þegar hv. þm. Jón Gunnarsson kemur hér upp og segir: Auðvitað vorum við með verkefnið og auðvitað vorum við að stýra vinnunni, þannig að það má alveg segja að við höfum verið nokkurs konar verkefnisstjórn, þá er það bara fullkomlega ófullnægjandi, þá bara heldur það ekki vatni.

Ég sakna þess, virðulegur forseti, ég er búinn að tala hér helming ræðutímans míns, að hæstv. umhverfisráðherra sé ekki hér í salnum. Ég vil óska eftir því og helst að gert sé hlé á ræðutíma mínum hér, að hæstv. ráðherra komi hér í salinn og hlusti á það sem ég hef að segja í þessum efnum. Mér finnst það eiginlega það minnsta sem menn geta gert þegar þeir ætla að ráðast í framkvæmdir sem breyta náttúru Íslands varanlega um aldur og ævi með stórkostlegum hætti að þeir geti þá að minnsta kosti sýnt manni þá virðingu að sitja í þingsal á meðan fjallað er um þá ákvörðun. Ég held að það sé algjört lágmark, þannig að ég spyr: Hæstv. forseti. Er hægt að gera ráðstafanir til þess að ráðherra verði hér viðstaddur?

(Forseti (KLM): Forseti mun gera þær ráðstafanir að senda þau skilaboð til ráðherra að hennar nærveru sé óskað hér í salnum.)

Það er líka áhyggjuefni að verða vitni að því þegar maður hlutar á ræðu formanns atvinnuveganefndar að hann er búinn að ákveða að nota orkuna, sem fæst úr þeim virkjunum sem hann er að leggja hér til, í orkufrekan iðnað. Hann hefur ákveðið það að þetta eigi allt að fara í stóriðju, það finnst honum einsýnt. Mér finnst það líka vera mikið áhyggjuefni þegar hann upplifir sig sem einhvers konar talsmann virkjunarsögu Íslands, heldur hér langar tölur um hvað Búrfellsvirkjun hafi skilað miklu o.s.frv. Það er enginn að deila um það hér. Um það snýst ekki þetta mál.

Það sem ég hef áhyggjur af með framhald þessa máls er að pólitísk forusta er mjög óljós. Það er ekki ljóst hvort það sé hugmynd ríkisstjórnarinnar að fylgja út í hörgul þeim breytingartillögum sem meiri hluti atvinnuveganefndar hefur lagt hér til. Það er eiginlega ekki ljóst heldur hvort umhverfisráðherra sé þeirrar skoðunar að samþykkja eigi tillöguna sem frá ráðuneytinu kom óbreytta eða að taka Hagavatnsvirkjun út og Skrokkölduvirkjun út og hleypa virkjununum í Þjórsá í gegn. Mér finnst það ekki skýrt heldur, mér finnst hæstv. ráðherra alls ekki hafa talað skýrt í þessum efnum. Og mér finnst það ekki liggja alveg ljóst fyrir hvort það sé meiri hluti fyrir þessum hugmyndum í stjórnarflokkunum. Það heyrast hér hróp úr salnum þegar þessi mál eru rædd frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að auðvitað muni menn styðja hæstv. umhverfisráðherra, en mér finnst það vera algjörlega óljóst.

Mér finnst það svolítið athyglisvert þegar hæstv. umhverfisráðherra talar um að hún vilji helst að verkefnisstjórnin fái að klára vinnu sína og birta niðurstöður sínar eftir eitt og hálft ár, að hún segi á sama tíma að hún sé tilbúin til þess að hleypa Urriðafossvirkjun og Holtsvirkjun í nýtingarflokk, vegna þess að það voru ekki ráðleggingar verkefnisstjórnar til ráðherrans. Mér finnst það því blasa við að hæstv. ráðherra sé tilbúin til þess að fylgja ráðleggingum verkefnisstjórnar þegar hún er sammála verkefnisstjórn og það finnst mér algjörlega óullnægjandi. Það er ekki nógu gott, það dugar ekki. Það er annaðhvort eða í þessu. Annaðhvort klárar verkefnisstjórnin, metur kostina, raðar þeim í röð, eða pólitíkin í landinu ákveður hvernig það er gert. Það er bara annaðhvort eða.

Hv þm. Jón Gunnarsson kemur hérna aftur og aftur upp og spyr að því hvort það hafi verið ætlunin að láta þingið bara stimpla niðurstöðuna. Já, það var ætlunin, það var hugmyndin. Ég held að það sé alveg ótvírætt að það hafi verið hugmyndin, nema ef til vill þegar kæmi að því að afla frekari gagna, nema ef til vill þegar kæmi að því að færa kosti úr nýtingu og í bið, vegna þess að það er stórkostlegur munur á því að fara með virkjunarkosti úr bið í nýtingu eða taka virkjunarkosti úr nýtingu í bið, eins og gert var á síðasta kjörtímabili eftir umsagnarferli og af ráðherra áður en málið kemur inn í þingið. Það er algjörlega ósambærilegt við það sem hér er á ferðinni, þar sem farið er fram hjá rétti almennings, stofnana og þingmanna til þess að taka efnislega afstöðu til málsins. Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að þeir sem fara með völdin í þessu landi útskýri hvernig þetta kemur heim og saman. Ég óska eftir rökstuðningi fyrir því af hverju þetta megi vera svona og sá rökstuðingur verður að vera vatnsheldari en úrskurður forseta hér í gær, sem heldur alls ekki vatni. Hann er byggður á svo hæpnum forsendum og er svo veiklulega orðaður að það er ekki byggjandi á slíku.

Ég sagði nú hér í ræðustól í gær að hann minnti mig á Bill Clinton í Monicu Lewinsky-málinu þar sem málsvörnin hvíldi á setningunni „það fer eftir því hvernig þú skilgreinir orðið „það““, vegna þess að niðurstaða forseta hér var sú að það væri ekki skýrt sérstaklega í lögunum við hvað átt væri með faglegu mati, að við eigum eftir að finna út úr því hvað það er nákvæmlega, þetta faglega mat. Og út frá því getur hv. þm. Jón Gunnarsson, sem er auðvitað ekkert annað en fúskari í náttúruvernd, komið hérna upp og sagt: Ja, við fórum svona yfir það sem upp á vantaði og það sem við náðum ekki að dekka — það verður bara umhverfismatið sem ræður því. Það eru óvönduð vinnubrögð. Hér er bara verið að fúska með hlutina, það er ekki verið að fara eftir því sem lagabókstafurinn segir.

Ef þetta á að standast, ef það er algjör óvissa um hvað faglegt mat þýðir má gagnálykta með þeim hætti að allir flokkunarkostirnir séu ófullnægjandi, þeir séu ekki til staðar. Þá er í raun og veru allt undir, það hefur ekki farið fram neitt faglegt mat vegna þess að menn vita ekki nákvæmlega hvað faglegt mat er, það er ekki búið að skilgreina það. Þá er þetta bara röð af einhverjum hlutum sem byggðir eru á einhverju sem er eiginlega bara loftið eitt.

Þegar virðulegur forseti hefur farið yfir málið allt með þeim ótrúlega flumbrugangi sem er í þessum úrskurði segir hann í niðurstöðu sinni, með leyfi forseta:

„Þegar það er skoðað í heild sinni sem hér hefur verið rakið sýnast rök hníga frekar í þá átt …“

Sýnast þau hníga svona frekar í þá átt að ekki sé hægt að vísa þessu máli frá! (GStein: Það er faglegt mat.) Það er faglegt mat hæstv. forseta.

Auðvitað geta menn komist að hvaða niðurstöðu sem er lagalega, en menn verða að velta því fyrir sér hvort það sé ekki fullkomlega siðlaust með öllu að hafa þau náttúruverðmæti sem hér um ræðir af þjóðinni allri um aldur og ævi með þeim hætti sem hér á að gera. Það er siðlaust með öllu að mínu mati. Og það sem meira er, það stangast algjörlega á við hagsmuni þjóðarinnar allrar. Það er vont fyrir pólitíkina, það er vont fyrir þingið, þetta mál allt saman er ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum til skammar. Það er þeim sem bera það fram til vansa að hafa gert þetta með þessum hætti, og að verða svo berir að því hér þegar þeir færa fram rök fyrir máli sínu að hafa misskilið með öllu lagabókstafinn.

Virðulegi forseti. Ég lýsi því yfir mikilli hryggð með það hvernig á þessu máli hefur verið haldið. Það er sorglegt að verða vitni að þeim hráskinnaleik sem birtist í orðum hv. þm. Jóns Gunnarssonar þegar hann segist vilja ná sátt um þetta mál, en þá verði menn einfaldlega að hætta að vera ósammála sér. Þvílíkt og annað eins, þvílíkur pólitískur og vitsmunalegur þroski sem birtist í svona yfirlýsingum. Það er með ólíkindum: Þá verða menn auðvitað að hætta að vera ósammála mér.

Það væri auðvitað óskandi, þó að ekki sé við því að búast, að ríkisstjórnin mundi taka þá ákvörðun að draga þetta mál til baka. Það á auðvitað að vísa þessu frá. Þetta er ekki þingtækt, hvorki lagatæknilega né siðlega.