144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:41]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta snýr auðvitað að því sem hv. þingmaður nefnir, en þetta snýr líka að ákveðinni tilvistarkreppu sem núverandi ríkisstjórn finnur sig í.

Ég var til dæmis í upphafi síðasta árs viðstaddur þegar Búðarhálsvirkjun var tekin í notkun. Það er nýjasta virkjunin í Þjórsá þar sem notað er vatn úr bæði Tungnaá og Þjórsá. Þar flutti hæstv. fjármálaráðherra ræðu og sagði að þeir væru rétt að byrja, stoltur af því að þetta væri rétt að byrja. Að vísu var þetta virkjun sem ekki var tekin ákvörðun um af hans ríkisstjórn heldur af fyrri ríkisstjórn og meginhluti byggingartímans var í tíð síðustu ríkisstjórnar, en þetta var rétt að byrja. Nú liggur það einhvern veginn þannig að það verði að halda áfram og að menn verði að sýna að þeir séu virkjunar- og stóriðjuflokkurinn, sami virkjunar- og stóriðjuflokkurinn og þeir hafa alltaf verið. Það verði að sýna fram á að það séu þeir sem láti hjól atvinnulífsins snúast. Þeir teikna upp þá mynd að það séu allir á móti því að þetta sé gert nema þeir, þó að náttúruverndarsinni eins og ég geti sagt um Búðarhálsvirkjun: Já, þetta finnst mér vera góð framkvæmd, það er skynsamlegt að nota vatnið sem fellur á milli Hrauneyjarfossvirkjunar, ef ég man þetta rétt, og Sultartanga, nota það og virkja enn einu sinni. Það er mjög ábatasöm og arðvænleg framkvæmd.

Það sem okkur birtist líka er algjör misskilningur og tengslaleysi við raunveruleikann eins og hann er núna og hvað er að gerast í atvinnulífinu. Þess vegna hljóma ræður hv. þm. Jóns Gunnarssonar og margra sjálfstæðismanna sem hafa fjallað um þetta mál og reyndar líka framsóknarmanna eins og menn séu staddir á árinu 1972, það sé allt annar veruleiki (Forseti hringir.) sem þessir menn búa í.