144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það var þannig fyrir augnabliki að hv. þm. Róbert Marshall var að ljúka ræðu sinni og undir ræðu hans þurfti hæstv. forseti að standa upp og gera grein fyrir því að verið væri að kalla á umhverfisráðherrann, vegna þess að hv. þingmaður óskaði eftir því. Ráðherrann gekk hér inn og gekk síðan út. Hvað var ræðan löng sem hv. þingmaður hélt? Hvar er umhverfisráðherra?

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt að halda þessari umræðu áfram og búa við þetta virðingarleysi þegar um er að ræða seinni umræðu af tveimur um þingsályktunartillögu. Ég vil gera kröfu til þess að auki, og í fullri alvöru, að hv. þm. Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sitji þessa umræðu líka, eins og hún gaf sérstök fyrirheit um á fundi þingflokksformanna í fyrradag að hún ætlaði að gera og þætti afar mikilvægt að heyra sjónarmið stjórnarandstöðunnar um þetta mál. Hvað meinti manneskjan með því, virðulegur forseti? Ráðherrann, takk fyrir, og formann þingflokks Framsóknarflokksins.