144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér koma hv. þingmenn Páll Jóhann Pálsson og Ásmundur Friðriksson slag í slag í pontu og lýsa fákunnáttu sinni á sögu rammaáætlunar og þeim lögum (Gripið fram í.) sem um hana gilda.

Virðulegur forseti. Á mælendaskrá eru hv. þingmenn sem fóru í gegnum þetta ferli og þekkja það algerlega inn og út, þ.e. hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, sú sem hér stendur og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir. Við munum örugglega allar fara vel yfir þetta ferli og ég vona að hv. þingmenn sem hér hafa talað og farið með rangfærslur um sögu rammaáætlunar og hvað var gert á síðasta kjörtímabili hlusti þá vel. Þeim er vissulega vorkunn vegna þess að þeir voru ekki hér á síðasta kjörtímabili, en mikilvægt er að þeir heyri söguna frá þeim sem þekkja hana best.