144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. þingmenn þessarar breytingartillögu, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson og Páll Jóhann Pálsson, eru komnir í salinn (Gripið fram í: Og Þórunn Egilsdóttir.) Þórunn Egilsdóttir er komin í salinn líka. Nú stöndum við frammi fyrir því að breytingartillaga þessara hv. þingmanna — umhverfis- og auðlindaráðuneytið segir að hún stangist á við lög um rammaáætlun sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili af öllum þingmönnum, það var ramminn sem átti að vinna eftir. Það er þá bara hægt að fara í að breyta rammanum ef menn eru ekki sáttir við rammann, en þetta var ramminn sem átti að vinna eftir. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið segir að það brjóti þá lagaumgjörð, breytingartillagan sem þeir hv. þingmenn sem ég horfi á núna hafa lagt fram. Er þá ekki kominn tími til að þeir hv. þingmenn kalli málið bara aftur til nefndarinnar og við ræðum það frekar þar? Eða ætla þeir að halda til streitu breytingartillögu sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið segir að brjóti landslög? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Komið upp og ræðið þetta.