144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:58]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Andsvör að loknum ræðum gefa oft ágætistilefni til að draga saman meginatriði í mjög stuttu máli. Mér finnst mjög mikilvægt það sem hv. þingmaður kom inn á. Það er mjög mikilvægt fyrir stjórnarþingmenn, sérstaklega framsóknarmenn mundi ég segja, sem að mínu mati hafa látið sjálfstæðismenn teyma sig út í mikið fúafen í þessu máli, að þeir hlusti á muninn og átti sig á muninum á þeim breytingum sem gerðar voru á tillögum verkefnisstjórnar á síðasta kjörtímabili og þeim breytingum sem hér er verið að leggja til, vegna þess að það verður ekki nógsamlega farið yfir. Ég vil biðja hv. þingmann í stuttu máli, eins og andsvarið leyfir, að útskýra hver munurinn er á þessu tvennu, vegna þess að þetta virðist vera meiri hluta atvinnuveganefndar skálkaskjól, að þetta sé sambærilegt því sem hinn meiri hlutinn gerði og þess vegna sé það í lagi. Ég vil heyra hv. þingmann lýsa muninum á þessu tvennu.