144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hér til að endurtaka þá ósk mína að þetta mál verði tekið á dagskrá í ljósi þess að í minnisblaði umhverfisráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið telur þetta ekki í samræmi við lög. Ég vil líka benda á að í dag féll dómur í Hæstarétti um að verðtrygging á neytendalánum á Íslandi sé lögleg. Ég er vikum og mánuðum saman búin að eiga inni ósk um sérstaka umræðu við hæstv. forsætisráðherra um verðtryggingu. Það er meginloforð Framsóknarflokksins að afnema verðtryggingu. Ég held að það væri vel við hæfi við þessi tímamót að við tökum þá umræðu hér sem varðar hagsmuni heimilanna í þessu landi. Tökum þetta vandræðamál af dagskrá og ræðum eitthvað sem skiptir fólk máli, launafólkið sem er í verkföllum þúsundum saman.