144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég ætla að stinga upp á því við forseta að við förum að ljúka þessari umræðu. Mér sýnist sem margir hv. þingmenn vilji segja sitthvað um fundarstjórn forseta og það gæti tekið okkur langan tíma. Það er uppstigningardagur á morgun, frídagur, og ég held að það sé engin ástæða til að halda þessari umræðu svo lengi áfram að menn fari í aðra ræðu hér. Það væri kannski frekar að menn mundu segja þetta gott þannig að í kvöld og á morgun gætu menn hugsað betur hvað þeir vilja ræða undir þessum lið á föstudaginn. Ef til vill gæfist ríkisstjórninni þá tóm til að hugsa málin, skoða betur í hvaða stöðu hún er komin með þetta mál. Ég spyr hvort ekki sé ástæða til að menn finni út úr því hvernig hægt er að vinda ofan af þeirri vitleysu sem við erum stödd í hér.