144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að ég sé með lausn á þessu með bjölluna. Við getum haft hérna í gólfinu eitthvað sem hristist þannig að það mundi trufla þingmanninn en ekki áheyrendur.

Mig langar að gera að umtalsefni frétt sem ég var að lesa á mbl.is sem ber yfirskriftina, með leyfi forseta: „Bjarni vill breyta þingsköpum.“ Hæstv. fjármálaráðherra, hvað á maður að segja, greinir vandann rétt en hann fer hins vegar mjög af leið með lausnir. Það fyrsta sem honum dettur í hug er að mál fái takmarkaðan tíma til umræðu. Önnur hugmyndin er sú að völd forseta til að stjórna þingstörfum verði aukin. (Gripið fram í.) Það er akkúrat öfugt. Það þarf meira vald til minni hlutans. Vandamálið við þingstörfin er að 60% þingmanna hafa 100% valdsins og málfrelsið er það eina sem minni hlutinn hefur. Þetta er staðan. Þá á maður að valdefla minni hlutann, til dæmis þannig að þriðjungur þings gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu eins og er gert í Danmörku með góðum árangri. Það er raunveruleg lýðræðisvæðing á þingstörfum, ekki meira alvald handa alvaldinu.