144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki vilji okkar í stjórnarandstöðunni að vera að ræða þetta tiltölulega lítilfjörlega útspil meiri hlutans í atvinnuveganefnd um furðulegar tillögur sem ekki verða að veruleika á þessu þingi. Við höfum viljað ræða um kjaramálin í landinu, um það hvernig megi koma heimilunum til aðstoðar og höfum meðal annars kallað eftir því að við fáum þá húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur velferðarráðherra til umfjöllunar, sem áttu að vera föst í fjármálaráðuneytinu. En nú lesum við það í blöðunum, ekki bara á Facebook hjá fjármálaráðherra heldur í blöðunum, að frumvörpin hafi verið dregin til baka, (Gripið fram í: Þetta er hneyksli.) (Gripið fram í: Nú?) að velferðarráðherra hafi dregið til baka a.m.k. annað þeirra meginfrumvarpa sem áttu að vera innlegg í erfiðar kjaradeilur og ákall eftir bættum lífskjörum í landinu. Maður er alveg hættur að skilja hvernig hlutirnir snúa í þinginu, hvaða frumvörp eru á leiðinni inn og hver eru á leiðinni út og hvaða ráðherra ætlar næst að flytja breytingartillögu við breytingartillögu síns eigin meiri hluta við sitt eigið mál.