144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kjarninn birti í dag frétt um það að í lok apríl hefðu húsnæðisfrumvörpin verið dregin til baka úr umsagnarferli í fjármálaráðuneytinu af hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Við höfum ekki fengið neinar fregnir af því hingað inn heldur hafa menn talað hér eins og þar séu málin í vinnslu og allt á fullri ferð. Við í stjórnarandstöðunni höfum setið hér tilbúin til þess að taka við þessum málum og vinna þau hratt hér í gegn til að koma til móts við deiluaðila á vinnumarkaði og svara því kalli sem kemur frá þeim sem hafa tekið þá erfiðu ákvörðun að fara í verkfall til að berjast fyrir bættum lífskjörum og lífsskilyrðum hér á landi. Þegar við stöndum frammi fyrir því að hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra er búin að taka tvö ár í að vinna frumvörp sem eru síðan dregin til baka og hún virðist vera að byrja upp á nýtt þá hvarflar auðvitað að manni að menn séu hér með okkur í þessum dansi til þess að breiða yfir það að þeir séu algerlega (Forseti hringir.) orðnir getu- og hugmyndalausir þegar kemur að því með hvaða hætti nálgast eigi þessi erfiðu mál á vinnumarkaði.

(Forseti (ValG): Forseti vill biðja þingmenn að halda sig sem næst því umræðuefni sem er til umræðu hverju sinni.)