144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:15]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Menn hafa talað um þessa löggjöf um rammann, vernd og nýtingu, í ræðum í ein 15–20 ár, svo lengi hefur hann verið í bígerð. Ég hef ekki hugmynd um hvernig best væri að hátta því, en menn lentu að minnsta kosti málinu, allir þingmenn samþykktu þann ramma og bæði virkjunarsinnar og verndarsinnar þurftu að gefa eftir til að komast inn í einhvern ramma þar sem væri hægt að vinna langtímastefnumótun í þessum málaflokki. Síðan saka núverandi stjórnvöld sem voru minni hlutinn þá stjórnvöld á síðasta kjörtímabili fyrir að hafa brotið rammann og eru núna sjálf að fara að brjóta rammann og þá verður engin langtímastefnumótun í þessum málaflokki. Þá verður bara allt upp í loft. Það er ekki gott fyrir neinn, frekjustjórnmálin þvinga bara svona í gegn. Sá tími er að miklu leyti liðinn. Það er pólitískt ofboðslega (Forseti hringir.) dýrt í dag og menn verða að fara að horfa til þess.