144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar rekur hér stórkarlalega gamaldags pólitík með hrossakaupum þegar kemur að auðlindum þjóðarinnar. Það lýsir sér best í því máli sem við erum nú að ræða og í málflutningi hv. stjórnarþingmanna og hæstv. ráðherra hér í dag. Þetta er með öllu ólíðandi.

Frú forseti gerir sér varla vonir um það að stjórnarandstaðan fari að semja rammaáætlun út af borðinu. Ég vil spyrja eins og aðrir hv. þingmenn hér: Hvenær gerir frú forseti ráð fyrir því að þessum fundi ljúki? Klukkan er að verða fimm. Það væri gott fyrir okkur þingmenn að fá að vita hvenær hún hyggst slíta fundi.

Ég spyr líka: Hvar er hæstv. umhverfisráðherra? Hví er hún ekki hér að fylgjast með umræðunni (Forseti hringir.) og taka þátt í henni með okkur?