144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Ég gerði ekki lítið úr þeim umsögnum sem bárust nefndinni, hvorki sveitarfélaga né annarra, ég benti hins vegar á að ekki mætti líta á þær með sama hætti og niðurstöður faghópa þar sem sérstaklega eru fengnir fagaðilar til þess að skoða tiltekna þætti, umhverfisþætti, oft samfélagslega og efnahagslega þætti, í þessum tilvikum umhverfisþætti, til að meta heildaráhrif hugsanlegra virkjana. Mér finnst þetta tvennt ólíkt. Ég geri ekki lítið úr umsögnum sveitarfélaga, ekki frekar en ég geri lítið úr stjórnmálamönnum almennt. Þeir hafa sínu hlutverki að gegna, en ég ætla til að mynda, hv. þingmaður, ekki að kalla mig fagaðila til þess bæran að dæma umhverfisáhrif hugsanlegra virkjana. Ég er ekki með „kvalifíkasjónir“ í það, svo ég fái að sletta hér.

Hvað varðar ferli rammaáætlunar síðast er það alveg skýrt skilgreint í lögunum að þegar verkefnisstjórn hefur skilað af sér til ráðherra er gefinn lögbundinn umsagnarfrestur, alveg eins og var gert með tillögu um Hvammsvirkjun. Hér í ágætri greinargerð hæstv. ráðherra koma fram öll þau atriði sem bárust frá umsagnaraðilum um þessa tillögu. Það er gert mjög vel grein fyrir því í greinargerðinni.

Í tilfellinu sem hv. þingmaður spyr um bárust 225 umsagnir og hæstv. ráðherra tók þá ákvörðun að leggja til við þingið að fluttir yrðu þrír hugsanlegir virkjunarkostir í Þjórsá, ekki í nýtingu, ekki í vernd, heldur í bið, þ.e. umsagnarfjöldinn var slíkur að ástæða var talin til þess að afla frekari gagna. Það virðist hafa verið á rökum reist ef marka má niðurstöðu verkefnisstjórnar sem segir hreinlega hér að það sé full ástæða til að skoða betur þær athugasemdir sem hafi komið fram um villta laxastofninn í Þjórsá. Þannig að ég fæ ekki séð að þetta sé sambærilegt með nokkru móti, herra forseti.