144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst fólk farið svolítið út úr umræðunni, það er lýsandi fyrir hana þegar farið er að tala um hvort eigi að virkja Dynk, Gullfoss eða Dettifoss eða Skógafoss eða Seljalandsfoss. Auðvitað er enginn að tala um það. Það er enginn að tala um það. Þetta er ákveðinn flótti frá því að taka efnislega umræðu um það sem um ræðir.

Ég stend við það að við erum að gera í raun alveg nákvæmlega sömu breytingar og gerðar voru á síðasta kjörtímabili, bara í aðra átt. Það kom verkefnisstjórn á þeim tíma mjög á óvart, kom fram í viðtölum við formann verkefnisstjórnar, að ráðherra skyldi ekki fara að ráðum fagaðila þá. Það sýnir kannski að í röðum fagaðila getur matið verið mismunandi. Þeir koma sér ekki saman um eina niðurstöðu.

En getur hv. þingmaður þá verið sammála mér um það að alveg eins og við urðum að beygja okkur á síðasta kjörtímabili í miklu ósætti (Forseti hringir.) fyrir lýðræðislega kjörnum meiri hluta á þingi, þá eigi það sama (Forseti hringir.) við núna, að það sé lýðræðislega kjörinn meiri hluti (Forseti hringir.) sem leggi þetta til, við greiðum atkvæði um þetta atriði og að lýðræðislega kjörinn meiri hluti skuli ráða?