144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég spyr aftur um hæstv. umhverfisráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur, hvort búið sé að gera henni viðvart um að hennar sé óskað á þingfundinum. Ef hæstv. forseti ætlar að halda þessari umræðu áfram sé ég ekki að það sé hægt öðruvísi en að hæstv. ráðherra sé viðstaddur umræðuna. Hún hefur verið hér afar strjált, bæði í gær og í fyrradag, afar strjált, og það er ekki boðlegt. Í ljósi þess að hér er um að ræða viðamikla breytingartillögu við hennar eigin tillögu eða tillögu hennar ráðuneytis, hennar forvera, þá gengur ekki annað en að hún sé hér og taki þátt í þeirri rökræðu sem hefur verið í gangi varðandi breytingartillögurnar.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að umræðan hefur verið góð, hún hefur verið upplýsandi og hún hefur verið afhjúpandi að því er varðar röksemdir og forsendur breytingartillögunnar. Það stendur í raun efnislega ekki steinn yfir steini. Við höfum fyrst og fremst talað um form en eftir því sem umræðunni vindur fram, og við förum meira að tala um innihald, kemur líka í ljós að þar er grundvöllurinn afar veikur.