144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Aðeins út af því sem hefur verið rætt hér um ASÍ, þá kom það mjög glögglega fram, í umsögn ASÍ frá árinu 2012, að þeir lögðu mjög mikla áherslu á að þessir virkjunarkostir yrðu settir í nýtingarflokk, sem ráðherra færði þá í biðflokk, og eins er verið að vitna í yfirlýsingu og samþykkt á miðstjórnarfundi ASÍ ári síðar.

Ég get verið sammála hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um að hér eigi sér stað málefnaleg umræða, þ.e. þegar málið er til umræðu. En það er mjög illa farið með tímann og beitt grímulausu málþófi þegar meiri umræða fer í fundarstjórn forseta en í málið sjálft. Það er illa farið með tímann.

Við þær aðstæður er ekkert annað að gera en að halda áfram og ég hefði viljað hvetja virðulegan forseta til að halda hér áfram í kvöld. Mér finnst full ástæða til þess. Það eru margir á mælendaskrá sem vilja tjá sig um þetta mál og einboðið að við þurfum að svara þeirri eftirspurn. Umræðan getur líka farið að ganga hraðar fyrir sig ef þessi liður, um fundarstjórn forseta, er ekki misnotaður eins og gert er í þessari umræðu.