144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé eðlilegast að gera hlé á þessum fundi þangað til hæstv. umhverfisráðherra er komin hér í salinn, bæði vegna þess hvernig málið er vaxið en líka vegna þess að ráðherrann hefur við meðhöndlun málsins orðið sérstakur gerandi í því hér í dag með tillöguflutningi og öðru slíku sem kallar enn frekar á að hún sé hér við umræðuna.

Hitt verður auðvitað að skilja að hæstv. umhverfisráðherra forðist að vera hér í salnum þegar félagar hennar hafa í rauninni tekið hana og hent henni út í skurð í málinu og leyft Sjálfstæðisflokknum að hrauna yfir tillögur ráðherrans, gera allt aðrar og miklu dramatískari tillögur en bæði þessi ráðherra Framsóknarflokksins og forveri hennar, hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, voru uppi með. Þeir hafa ákveðið að sniðganga hér hv. þm. Höskuld Þórhallsson, formann umhverfisnefndar, og gera þá nefnd að engu. Þeir hafa hér að engu verksvið efnahags- og viðskiptanefndar með hv. þm. Frosta Sigurjónsson í broddi fylkingar, vegna þess að hann leyfir sér að hreyfa einhverjum sjálfstæðum skoðunum öðrum (Forseti hringir.) en þeim sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur. Það er auðvitað bara hryggilegt að sjá hvernig Framsóknarflokkurinn hefur runnið niður í ræsið á undanförnum dögum hér í þinginu.