144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:45]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að í rammaáætlun 3 komu fram gögn, komu fram upplýsingar, sem ekki lágu fyrir í rammaáætlun 2 og ég er þannig gerð að mér þykir betra að taka upplýstar ákvarðanir en ekki þannig að ég mundi alltaf miða við það. Það er ekki gott að fara til baka og segja, með rammaáætlun 2, hvernig hlutirnir hefðu verið hefði ég vitað minna. Ég veit ekki af hverju maður ætti að vilja það. En ég hef það að leiðarljósi að hlíta þeim úrskurði sem verkefnisstjórn rammaáætlunar kveður upp og mælir með til ráðherra.

Ég hef trú á ferlinu. Ég hef séð sjálf hvernig verkefnisstjórn vinnur. Mér finnst það faglegt ferli. Mér finnst það heiðarlegt og ég hef trú á því. Ég hef trú á því að verkefnisstjórnin sé til þess bær, og þetta skapalón sé þannig sniðið, að geta fært okkur bestu niðurstöðu.