144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það rifjast upp fyrir mér að á þingflokksformannafundi í upphafi síðustu viku þegar forseti kynnti að til stæði að setja þetta mál á dagskrá upphófust ekki mikil fagnaðaróp á fundinum, það var ekki klappað fyrir forseta fyrir að koma með þetta mál á dagskrá heldur var þvert á móti varað mjög sterklega við því að þetta mundi setja hér öll þingstörf í mikið uppnám og þingstarfið allt saman í hnút. Menn fóru auðvitað inn í þetta ástand með bæði augun galopin, þeir vissu alveg nákvæmlega hvaða staða mundi koma hér upp og þurfa ekkert að láta það koma sér á óvart að staðan skuli vera sú sem hún er nú.

Það sem kemur mér á óvart er hversu lengi ríkisstjórnin ætlar að þráskallast við í þessu máli, hversu lengi ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn ætla að berja höfðinu við steininn í þessum efnum, vegna þess að þetta breytist ekkert. Þetta lá fyrir í byrjun síðustu viku og er nákvæmlega eins og varað var við.