144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Annað atriði sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni var að hér er lagt upp með fráhvarf frá því fyrirkomulagi sem gert er ráð fyrir í lögum um rammaáætlun, að verkefnisstjórn ákveði virkjunarkosti. Það er athyglisvert þegar horft er til áherslu núverandi stjórnarmeirihluta á síðasta þingi var stefna Sjálfstæðisflokksins að segja: Við skulum taka það sem verkefnisstjórnin leggur til. Það þótti mér alltaf mjög virðingarverð afstaða af hálfu þeirra á síðasta kjörtímabili. En nú hefur verið horfið frá því og menn bæta einhverju við í meðförum þingsins.

Eins og hv. þingmaður nefndi kynni það að vera að menn væru þá að búa til nýja hjáleið. Gefum okkur að á næsta ári komi hæstv. ráðherra með tillögu um einhvern virkjunarkost sem þá verður kominn í gegn, þá verður væntanlega búið að skapa það fordæmi að meiri hluti atvinnuveganefndar mun geta bætt við hverju sem meiri hluta atvinnuveganefndar dettur í hug (Forseti hringir.) án þess að ganga gegn lögum um rammaáætlun. Er hv. þingmaður sammála mér um að það séu í sjálfu sér engar hömlur á því hvað meiri hluta atvinnuveganefndar getur dottið í hug ef þetta fordæmi verður skapað nú?