144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og fleiri hv. þingmenn kalla ég eftir viðveru hæstv. forsætisráðherra. Hann hefur, sem yfirmaður framkvæmdarvaldsins, talað þannig að um sé að ræða innlegg í kjarasamningaviðræður. Ég taldi hér upp áðan að fyrir lægi áskorun frá einhverjum verkalýðssamtökum og opinberum samtökum eins og BHM, sem er í samningaviðræðum, og ég held áfram á þeirri braut. Hefur ríkissáttasemjari komið að máli við hæstv. forsætisráðherra og talað um að þetta gæti verið einhver lausn á kjarasamningum?

Mér finnst að við sem erum hér á þingi eigum rétt á að vita hvað er að gerast að þessu leyti og vera þátttakendur í því sem er að gerast á þeim vettvangi. Hæstv. forsætisráðherra verður að vera hér í salnum og ræða við okkur þingmenn og gera grein fyrir því hvaða innlegg þetta mál er í kjarasamningaviðræður.