144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef ekkert út á fundarstjórn hæstv. forseta að setja, hún er með miklum ágætum. En mig langar einfaldlega að koma því á framfæri að það er akkúrat það sem við erum að reyna að gera hér og fá fram, þ.e. að ná að ræða málið. Það er gert undir málinu sjálfu en ekki undir liðnum um fundarstjórn forseta.

Ég vek athygli á því að við þurfum að komast á þann stað að ná að koma umræðunum af stað. Klukkan er að verða sex og hér er búið að halda tvær ágætar ræður í dag. Að öðru leyti höfum við aðallega talað undir liðnum um fundarstjórn forseta, við vorum í örstuttum fyrirspurnatíma fyrst í dag. Hæstv. forseti. Höldum áfram með fundinn, fáum nokkrar ágætar ræður og ræðum málið, gerum það.