144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er nú einu sinni þannig að þegar koma fram upplýsingar, hvort sem það er við 2. hluta rammaáætlunar eða 3. hluta, ber okkur að taka þær til athugunar. Ef viðkomandi nefnd eða verkefnisstjórn kemst ekki yfir eitthvert tiltekið mál hverju sinni eins og í þessu tilfelli, þá verðum við að auðsýna þolinmæði, þá verðum við að gefa tækifæri en ekki taka okkur ákvörðunarvaldið í hönd og halda að af því að hún komst ekki yfir það, hvort sem það var vegna fjárskorts eða einhvers annars, megum við bara ákveða hvort eitthvað eigi að fara í nýtingarflokk eða ekki.

Það er mín skoðun á því að þegar ný gögn birtast beri okkur að virða það. Hv. þingmaður hefur heyrt það mörgum sinnum sagt að það var ástæða fyrir því að fram komu gögn sem þurfti að skoða betur og þess vegna er það hluti af skýringunni að ekki fór meira í nýtingarflokk þá, heldur var sett í bið.