144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Enn mótmælum við stjórnarandstöðuþingmenn dagskrárgerðinni í þessum sal. Í rauninni er framganga stjórnarmeirihlutans, ríkisstjórnarinnar og ég vil því miður segja líka hæstv. forseta þingsins í þessu máli alveg frá upphafi með endemum. Umhverfisráðherra flytur hér tillögu til þingsályktunar og þeirri þingsályktunartillögu er vísað til atvinnuveganefndar vegna þess að það er alveg ljóst að náttúran og umhverfið á ekki að njóta neins vafa í meðferð þessa máls.

Atvinnuveganefnd leggur fram breytingartillögur sem hafa verið dæmdar af ráðuneytum þannig að þar er farið á skjön við lögin um rammaáætlun sem svo eru kölluð í daglegu tali. Þessu mótmælum við, virðulegi forseti, og ég legg til að fundi verði slitið. Ef það verður ekki gert ættum við að minnsta kosti að hafa frú Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra hér til að hlýða á okkur.