144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að ég hefði farið áðan yfir það sem hv. þingmaður er að vísa til, sem eru listarnir frá faghópunum sem fóru í flokkunarferli sem fóru síðan í opið umsagnarferli. Það var í þessu opna umsagnarferli sem fram komu rökin varðandi laxinn í Þjórsá og varðandi Skrokköldu og Hágöngur í návígi við Vatnajökulsþjóðgarð. Það voru sérstakar og nýjar röksemdir sem við töldum ástæðu til að horfa betur til og verkefnisstjórn rammaáætlunar 3 fékk síðan bréf frá ráðherra þar sem óskað var eftir að það yrði sérstaklega tekið til skoðunar.

Varðandi það hvort rammaáætlun 2 sé enn í gildi þá átti rammaáætlun 2 endapunkt með þingsályktun í janúar 2013. Hv. þingmaður getur ekki tekið einhvern punkt úr því ferli sem þóknast honum eða sem þjónar hans markmiðum (Gripið fram í.) vegna þess að það sem við erum með í höndunum er í raun og veru endanleg afgreiðsla þingsins. Það er þar sem rammaáætlun 2 gildir auðvitað, hvað er í (Forseti hringir.) verndarflokki, hvað er í nýtingarflokki og hvað er í biðflokki.