144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjaldan hef ég óskað þess heitar að ég hefði meiri tíma. Ég er ekki sammála öllu sem hv. þingmaður sagði í sinni ræðu, en ég vil þó þakka honum kærlega fyrir einlæga og mikilvæga ræðu. Það var mjög mikilvægt að ræða um það efni sem hv. þingmaður fór inn á, þar á meðal að við þurfum að geta treyst sérfræðingum til þess að standa að þeirri faglegri vinnu sem þarf að vinna til þess að taka upplýstar og réttar ákvarðanir út frá faglegum sjónarmiðum. Ágreiningurinn hér er að miklu leyti um það. Sömuleiðis það sem hv. þingmaður sagði um virðingu þingsins, það tók ég mjög til mín og með réttu. Ég eins og hv. þingmaður vil segja við, við öll, þetta þing er ekki að standa sig og almenningur veit það. Það er þess vegna sem almenningur treystir ekki Alþingi.

En þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað eigum við að gera í því? Vandi minni hlutans er sá að eina ráðið sem við höfum er að kvarta. Þegar við kvörtum gerist ekkert þannig að við kvörtum meira og það gerist enn þá ekkert. Eina sem við getum er að kvarta meira. Við þurfum einhver tæki, við þurfum einhver tól, einhverjar breytingar (Forseti hringir.) sem gera okkur kleift að ræða saman og útkljá vandamál eins og dagskrána. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmaður leggur til.