144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:12]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn.

Ég var náttúrlega fyrst og fremst að tala um að það þyrfti að vera sú sátt í landinu að við treystum sérfræðingum fyrir málum. Meðan málin eru þannig að við í atvinnuveganefnd og í þinginu eigum að klára málin þá gerum við það auðvitað. Ég held að samkvæmt því sem ég var upplýstur um og samkvæmt mínu viti þá vorum við bara alveg á réttri leið með tillöguna, en aðalmálið núna er kannski að finna leið til þess að ná sáttinni, ekki byrja á að fara aftur til baka og finna út af hverju við gerðum þetta en ekki hitt. Ég held að langtímahugsunin eigi að vera sú að við treystum þeim sem mest vit hafa á þessu. Ég er ekki að segja að við getum ekki tekið erfiðar ákvarðanir í þinginu, byggðar á rannsóknum og niðurstöðum sérfræðinga, en það þarf þá að vera þannig að traust ríki, að niðurstaða þeirra — eins og við ætluðum að yrði — sé hinn endanlegi dómur, eins og ég held að sé t.d. í Noregi. Þannig að ég held (Forseti hringir.) að við þurfum að komast á þann stað að við séum ekki að taka ákvörðun um fósturvísa og sæði.