144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:36]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ræðumanni og hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var yfirgripsmikil. Hún fór yfir vinnuferli rammaáætlunar sem hún sagði í þróun. Ég get ekki alveg verið sammála því. Mér finnst lögin um rammaáætlun mjög skýr og afmörkuð og alls ekkert eitthvað sem er í þróun. Þannig skil ég þessi lög.

Ég er alveg sammála því, sem kom fram í ræðu hv. þingmanns, að verkefnisstjórn á að vinna faglegt mat. En svo sagði þingmaðurinn líka: Alþingi er ekki bundið, þarf ekki faglegt mat — en er það eitthvað til að stæra sig af? Er gott að Alþingi eða meiri hluti atvinnuveganefndar vilji vinna þannig, ekki eftir faglegu mati? Er það heillavænlegt? Af hverju vill meiri hlutinn það?