144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held ekki að það sé rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hv. þm. Jón Gunnarsson sé einn um þessa skoðun. Nákvæmlega þessa skoðun má lesa úr úrskurði hæstv. forseta. Það er einfaldlega þannig.

Ég held, herra forseti, að það sé til leið út úr þessum ógöngum. Fimm virkjanir eru lagðar til í þessari breytingartillögu, það er búið að taka eina út. Skrokkalda skiptir engu máli í hinu stóra samhengi orkunnar vegna þess að hún er bara 30 megavött. Þá eru þrjár virkjanir eftir í neðri hluta Þjórsár. Það kom fram í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur og hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur að þar væri fyrst og fremst um einn þátt að ræða sem þyrfti að skoða, það væru laxarökin. Ef maður skoðar þau þá eru það fyrst og fremst seiðafleyturnar. Það er vel hægt að leysa það mál á tiltölulega skömmum tíma með því að fá t.d. erlenda stofnun til að fara yfir þann mýgrút af vísindagreinum sem hafa verið skrifaðar um það á síðustu árum. Það eigum við að gera. Þess vegna er hægt að taka þessa tillögu alla út af borðinu, beina því til verkefnisstjórnar að ljúka þessum þremur virkjunum í haust (Forseti hringir.) og þá getum við annaðhvort hent þessum kostum (Forseti hringir.) út af borðinu eða tekið til óspilltra málanna og rætt þá hér að þeim (Forseti hringir.) fullrannsökuðum.