144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það segir skýrt í skýrslu verkefnisstjórnar að faglegt mat fór fram. Já, meiri hluti atvinnuveganefndar er ekki sammála niðurstöðunni eftir það ítarlega umsagnarferli sem hún fór með málið í. Þetta er með nákvæmlega sama hætti og stjórnmálamenn á síðasta kjörtímabili og ráðherra gerðu þegar þeir fóru yfir þetta mál. Þeir fóru með það í umsagnarferli og mátu niðurstöðu verkefnisstjórnar og faghópa þannig að þessir virkjunarkostir ættu ekki að vera í nýtingarflokki. Það er enginn munur á vinnubrögðunum þá og nú, ekki nokkur. Það er verið að meta þetta eftir að hafa farið með það í umsagnarferli og við leggjum til breytingartillögur á grundvelli þess. Hver er munurinn? Er verið að gera fólk að fíflum? Var þá verið að gera fólk að fíflum á síðasta kjörtímabili? Er verið að opinbera það hér?

Til hvers er málsmeðferð á þingi ef það átti bara að vera stimpilpúði fyrir þessar niðurstöður? Af hverju var því þá ekki sleppt í lögunum? Þetta stenst enga skoðun, virðulegur forseti. (Gripið fram í.) Auðvitað er algjörlega verið að fara að leikreglum. Þessir virkjunarkostir í Þjórsá hafa fengið faglegt mat (Forseti hringir.) og eftir umsagnarferli eru komnar fram rökstuddar breytingartillögur í þá veru. (Forseti hringir.) Síðan koma þingmenn Vinstri grænna enn og aftur og segja: Hverra hagsmuna er verið að gæta? Þetta er kannski jafn smekklegt og það sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir vék að í Kastljóssþætti um (Forseti hringir.) daginn þar sem hún ýjaði að því að ég þæði mútur út af þessu máli. Mér finnst, virðulegur forseti, full ástæða fyrir forsætisnefnd þingsins að skoða það þegar þingmenn viðhafa slík ummæli um aðra þingmenn. (Gripið fram í.)