144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta verður æ dapurlegra með skilning hv. þm. Jóns Gunnarssonar á ferlinu og anda og inntaki laganna um rammaáætlun. Til viðbótar því sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir rakti um grundvallarmuninn á því sem gerðist á síðasta kjörtímabili og hér á að fara að gera, þarf að benda á að þar var enginn einasti kostur færður frá tillögum niðurstöðu verkefnisstjórnar í varanlega flokkun, enginn. Það var eingöngu um það að ræða að á grundvelli upplýsinga sem fram komu og fagmenn þurftu að meta betur voru nokkrir kostir færðir í bið, en biðflokkurinn er biðflokkur. Það virðist hv. þm. Jón Gunnarsson ekki skilja þannig að þessi málatilbúnaður allur verður æ hörmulegri eftir því sem á líður. Ég skil satt best að segja ekki að meiri hlutinn skuli ekki fara að játa hvað úr hverju uppgjöf sína í þessu máli. Það stendur ekki steinn yfir steini í málatilbúnaðinum hjá þeim öllum saman.