144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála þingmanninum um þetta en vil svara því til að ef menn vilja sátt, og ég þekki engan þingmann sem verður jafn tíðrætt um að vilja sátt og hv. þm. Jón Gunnarsson, væri þeim í lófa lagið að leggja fram lagafrumvarp til breytinga á lögum um rammaáætlun þannig að þeir gætu stoppað upp í þá annmarka sem þeir telja að hafi verið á ferlinu á síðasta kjörtímabili. Ef menn hafa verið ósáttir við það ferli þá gætu þeir auðveldlega lagt fram frumvarp þar sem lagabókstafurinn yrði skýrður og allt þetta í kringum umsagnarferlið o.s.frv. og hvernig ráðherrar eiga að haga sér eftir því, því yrði hagað þannig að sátt næðist En það er einhvern veginn þannig að þeir sem tala mest um sátt hér á bæ eru yfirleitt að tala um að allir aðrir eigi að vera sammála þeim. Það er svolítið þannig. Mér sýnist það vissulega vera tilfellið núna.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni en vandinn er sá að Alþingi getur samþykkt þessa þingsályktunartillögu þótt hún sé í ósamræmi við lög. Þá er sá vandi kominn upp að það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar vegna þess að samkvæmt öðrum skilningi orðanna getur Alþingi það ekki, ekki með lögmætum hætti en það getur það með ólögmætum hætti. Vandinn er auðvitað sá að ef það er ólögmætt erum við öll komin í þó nokkurn vanda.

Þetta er einn af þeim þáttum sem mér finnst hv. þingmenn meiri hlutans ekki gefa nægan gaum vegna þess að þetta ætti að vekja áhyggjur manna jafnvel þótt þeir séu hlynntir öllum tillögum hv. atvinnuveganefndar og efnislega sammála þeim.